EIGNARÉTTUR
Sérfræðingar í fasteignamálum
Lögmenn Eignaréttar sérhæfa sig í úrlausn ágreiningsmála um fasteignir fyrir kaupendur og seljendur, húsfélög og byggingaraðila. Meðal helstu verkefna stofunnar má nefna hagsmunagæslu fyrir kaupendur og seljendur vegna galla í fasteignum og ráðgjöf fyrir húsfélög og eigendur fjöleignarhúsa.
Fasteignagallamál
Algengustu deilumál á sviði eignaréttar varða deilur aðila um hvort fasteign teljist gölluð eða ekki.
Við höfum umtalsverða reynslu af því að veita kaupendum og seljendum, sem og húsfélögum og byggingaraðilum, ráðgjöf um réttarstöðu þeirra í fasteignagallamálum.
Í slíkum málum er mikilvægt að fá vandaða og raunsæja ráðgjöf, hvoru megin við borðið sem aðilar sitja.
Röng ráðgjöf getur leitt til þess að hagsmunir fari forgörðum eða að sættir takist ekki með tilheyrandi kostnaði fyrir hlutaðeigandi. Ráðgjöf okkar snýr m.a. að sáttaumleitunum, beitingu vanefndaúrræða, t.d. hvort halda eigi eftir greiðslu, krefjast úrbóta eða afsláttar ellegar beita riftun.
Þá aðstoðum við aðila við að setja fram kröfur sínar og að þeim sé beint að réttum aðilum en t.d. getur ábyrgð byggingarstjóra, iðnmeistara eða hönnuðar komið til skoðunar.
Það skiptir máli að bregðast hratt við í fasteignagallamálum þar sem ýmsir tímafrestir og tómlætissjónarmið geta komið til skoðunar.
Þá höfum við mikla reynslu af rekstri fasteignagallamála fyrir dómstólum.
Fjöleignarhús
Við veitum húsfélögum og einstaklingum ráðgjöf varðandi fjölbreytt álitamál sem upp koma í fjöleignarhúsum, hvort heldur íbúðar- og atvinnuhúsæði, svo sem um breytingar á hagnýtingu eignar, almennar breytingar á úliti, viðhaldsframkvæmdir og fleira.
Leiguréttur
Við veitum leigusölum og leigutökum ráðgjöf við gerð og túlkun leigusamninga, ráðgjöf varðandi tiltæk úrræði vegna vanefnda á leigusamningi, aðstoð við gerð kæra til kærunefndar húsaleigumála og málarekstur fyrir dómstólum.
Það getur sparað tíma og fjármuni að fá yfirlestur sérfræðings á leigusamning áður en hann er undirritaður.
Einnig skiptir verulegu máli að rétt sé staðið að riftunum og beitingu annarra vanefndaúrræða í samræmi við húsaleigulög.
Tryggingafélög
Samskipti við tryggingafélög
Við höfum umtalsverða reynslu af samskiptum við tryggingafélög og höfum m.a. unnið fyrir tryggingarfélög í fasteignamálum.
Í mörgum fasteignagallamálum eiga aðilar rétt á að fá tjón sitt bætt úr tryggingu sérfróðra aðila, svo sem byggingarstjóra, iðnmeistara og hönnuða.
Ýmsir tímafrestir koma til skoðunar og getur því skipt máli að hafa hraðar hendur.
Forkaupsréttur
Lögmenn stofunnar hafa umtalsverða reynslu af ráðgjöf í tengslum við beitingu forkaupsréttar.
Við beitingu forkaupsréttar þarf að huga að ýmsum álitamálum sem upp geta komið, s.s. hvert eigi að beina tilkynningu um beitingu forkaupsréttar.
Þá kunna að vera tímafrestir sem huga þarf að og er því mikilvægt að fá vandaða ráðgjöf því ella kunna mikilvægir hagsmunir að fara forgörðum.
Skipulags- og byggingamál
Reglulega koma upp álitaefni um réttarstöðu einstaklinga og lögaðila gagnvart skipulagsyfirvöldum sveitarfélaga.
Við veitum álit og ráðgjöf um réttarstöðu í slíkum málum og getum aðstoðað við gerð stjórnsýslukæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.